Ráð fyrir vegan eldamennsku

Ef þið eruð að byrja að elda vegan rétti, hafið verið að gera það um tíma eða eruð að hugsa um að minnka dýraafurðir í fæðu ykkar þá hafið þið líklega lesið ykkur til um grænmetis miðaðar uppskriftir, næringargildi ofl. Kannski komust þið svo að sömu niðurstöðu og ég komst að í byrjun og sáuð að þið þurftuð að kaupa allskonar hráefni sem þið könnuðust ekki við og útvega ykkur ýmis konar búnað eins og matvinnsluvél eða blandara. 

Það eru til margir listar á netinu um hvað er gott að eiga í vegan eldamennsku. Fólk í kringum mig hefur bent mér á að uppskriftirnar mínar virðast flóknar, sum hráefnin í þeim séu illa þekkjanleg eða fáanleg og að þau vilji ekki kaupa stóran skammt af einhverju til að nota það aldrei aftur. Markmiðið með þessu matarbloggi mínu er alls ekki að fæla fólk frá vegna flókinna hráefna eða uppskrifta sem taka endalausan tíma. Heldur er það til að sýna að matur án dýraafurða getur verið rosalega góður og miklu meira en bara salat (þó svo salat sé alltaf ágætt). Hér ætla ég því að skrifa niður nokkur ráð og lista yfir það sem ég á alltaf til í eldhúsinu, vonandi hefur einhver gagn af.

aroma-care-close-up-725998.jpg

Í skápnum
Hrísgrjón
Quinoa
Hnetusmjör/Möndlusmjör
Kókosmjólk
Passata
Niðursoðnir tómatar
Tómat púrra
Nýrnabaunir
Svartar baunir
Linsubaunir

Pasta
Flestar þurrar tegundir af pasta eru vegan en geta einstaka sinnum innihaldið egg. Það er alltaf gott að lesa aftan á pakkninguna til öryggis. 

Soja sósa/Tamari
Bæði Soja sósa og Tamari eru afurðir af soja bauninni. Soja sósa er líklega meira kunnug flestum en aðal munurinn á þeim er að Tamari inniheldur ekkert glútein og hefur minna salt. Tamari er búið til sem aukaafurð úr Miso Paste.

Örvarrót (e. Arrow root powder)
Þetta duft fæst í Hagkaup m.a. og er gott til að nota til að þykkja osta, sósur ofl. Það þykkist við hita. Duftið kemur í litlum pakkningum og endist ágætlega lengi. Annað sem hægt væri að nota er maís eða tapíóka sterkja. Ég hef ekki mikla reynslu af því en hef heyrt að það virki svipað.
 

Kasjúhnetur
Kasjúhnetur eru algjört undur fyrir mér. Með því að leggja þær í bleyti og blanda í matvinnsluvél eða blandara verða þær að silkimjúkri sósu eða einskonar rjóma. Hægt er að búa til ostasósu úr þeim, sýrðan rjóma, matreiðslurjóma, ostaköku... Ég mæli basically með að eiga þær alltaf til.
Gott ráð ef þið gleymið að leggja þær í bleyti eða hafið skamman tíma; Hellið sjóðandi heitu vatni yfir og látið bíða í korter þá eru þær til!

Bláberja ostakaka úr kasjúhnetum -  Uppskrift hér

Bláberja ostakaka úr kasjúhnetum - Uppskrift hér

Kjúklingabaunir
Þessar baunir á ég alltaf til. Það er hægt að nota þær í salöt, pottrétti, falafel, hummus.. Það er hægt að nota vökvann af þeim (aquafaba) til að búa til marengs, majónes og súkkulaði mús. Svo er líka hægt að búa til kjúklingabauna hveiti úr þeim.

Fyrir bakstur
Fínmalað Spelt eða hveiti
Hrásykur eða venjulegan
Kókossykur - kemur í stað púðursykurs
Vanilluduft eða dropa
Lyftiduft
Matarsódi
Kakóduft
Ger
Hafrar
Chia fræ
Möndlur
Döðlur
Rúsínur
Eplaedik

Í stað eggja
Eplamauk + Lyftiduft
Eplaedik + Matarsódi
Banani + Lyftiduft
Hörfræ + Mjólk + Eplaedik

Eplamauk
Ég nota eplamauk mikið í bakstur í stað eggja og smjörs. Ég er hrikalega léleg að mæla hluti á meðan ég baka (þess vegna getur verið erfitt að skrifa niður uppskriftir!) en það fer yfirleitt eftir tilfinningu hversu mikið ég nota á móti öðrum hráefnum sem eru í uppskriftinni. Fyrir eitt egg þá set ég ríflega sama magn af eplamauki og vökva sem finnst í egginu. Það sama gildir fyrir smjörið. Svo bæti ég alltaf við lyftidufti.

Gulrótarkaka með eplamauki í stað eggja -  Uppskrift hér

Gulrótarkaka með eplamauki í stað eggja - Uppskrift hér

Sætiefni
Agave
Hlynssíróp

Krydd
Kúmen
Kanill
Chili
Karrý
Oreganó
Túrmerik
Garam Masala
Papriku duft
Joð bætt salt
Pipar
Grænmetiskraftur

Joð bætt salt
Það er mikilvægt fyrir þá sem borða engar dýraafurðir að fá joð. Það er auðvelt að bæta því við fæðu sína með því að nota joð viðbætt salt. Jozo saltið er með joði og fæst í Nettó. 
Önnur fæða sem inniheldur joð er þari, þurrkaður þari fæst líka í Nettó og er hrikalega gott snakk!

Næringager (e. Nutritional Yeast)
Næringager fæst í Nettó t.d. eða í heilsubúðum. Það er hægt að strá þessu yfir hvað sem er en þetta gefur svona osta "hnetu" bragð. Gott að nota í osta sósur, súpur, lasagne, yfir popp ofl. Næringager er líka góð uppspretta B12 sem er mikilvægt fyrir alla að fá nóg af.

Rjómalöguð pasta baka með brauðmylsnu og fullt af næringageri! -  Uppskrift hér

Rjómalöguð pasta baka með brauðmylsnu og fullt af næringageri! - Uppskrift hér

Olíur
Þær olíur sem ég nota mest eru Kókosolía, Avókadó olía og Sesamolía. Kókosolían er algjör snilld í bakstur þar sem hún heldur öllu vel saman þegar hún kólnar (t.d. í ostaköku) og á pönnu. Það er hægt að fá tegund sem er bragðlaus ef þið eruð viðkvæm fyrir bragðinu. Avókadó olían er góð til steikingar þar sem hún þolir háan hita. Sesamolían finnst mér rosalega bragðgóð hún er góð til að nota í allskonar sósur og á þurra húð. Hún geymist lengi ég finn alltaf einhver not fyrir hana. Ég á alltaf til ólífuolíu líka en nota eiginlega bara í hummus gerð.

Í Kæli
Plöntu mjólk
Sulta
Vegenaise Majónes
Sinnep
Miso Paste
Súrkál
Sriracha (chili sósa, fæst í flestum búðum)
Vegan smjör eða smjörlíki
Vegan jógúrt
Sítrónur
Engifer rót
Hvítlaukur
Annað ferskt grænmeti og ávextir

Tahini
Tahini er smjör gert úr sesamfræjum. Það er einstaklega kalk-ríkt og er lykil hráefni í hummus. Það er líka hægt að nota það í bakstur, sósu með falafel, í salat eða yfir búddaskál.

Miso Paste
Miso paste er soja afurð. Ég nota miso paste frekar mikið þar sem mér finnst það gefa svo ríkt bragð. Það fæst í Fjarðakaup og endist í sirka 3-4 mánuði í ísskáp eftir opnun. Það sem getur komið í staðinn fyrir það er tahini blandað saman við soja eða tamari sósu. Eða eplaedik ef það er lítill skammtur sem á að nota.

Sushi skál með miso engifer sósu -  Uppskrift hér

Sushi skál með miso engifer sósu - Uppskrift hér

Í frysti
Brauð, til að rista
Ávextir í smoothie
Hollar kökur í litlum bitum
Grænmetisbuff
Banana skorna í bita
Vegan ís, (Booja Booja og Coconut Bliss eru uppáhalds)

Rabbarbara baka með banana ís úr frosnum bönunum -  Uppskrift hér

Rabbarbara baka með banana ís úr frosnum bönunum - Uppskrift hér

Ég vona að einhver hafi haft gagn af því að lesa þetta. Vegan eldamennska krefst smá þolinmæðis og tíma en þegar maður hefur sett sig inn í hana almennilega þá getur verið ótrúlega skemmtilegt að bæði elda og baka. Mér fannst aldrei neitt sérstaklega skemmtilegt að búa til mat fyrr en ég varð vegan. Maður verður að vera úrræðagóður og skapandi sem er krefjandi. Og allt í einu, fyrir mitt leyti allavega, virðist hefðbundin eldamennska einföld og frekar leiðinleg.